Hvað veistu um heilabilun?

1790
einstaklingar hafa samþykkt að fræðast nánar um heilabilun.
Skráðu þig og fáðu upplýsingar og fróðleik um heilabilun
Fáðu Heilavina næluna á skrifstofu Alzheimersamtakanna.
Taktu þátt og vertu Heilavinur!
Vertu heilavinur
Go Down Left Left
Top Image
Top Image
Side Image

Viltu gerast mánaðarlegur styrktaraðili Heilavina?

Gerast styrktaraðili
Með því að gerast mánaðarlegur styrktaraðili aðstoðar þú okkur að auka þjónustu við fólk sem greinist ungt með heilabilun, þá sem skammt eru gengnir með sjúkdóm sinn og aðstandendur þeirra.

Við áætlum að á hverjum tíma búi 120 einstaklingar yngri en 65 ára með heilabilun við það að fá ekki þjónustu við hæfi.

Tímamót urðu í starfsemi samtakanna á árinu 2022.

Fyrir tilstilli Oddfellowreglunnar á Íslandi hófu samtökin starfsemi Þjónustumiðstöðvar í Lífsgæðasetrinu í St. Jó í Hafnarfirði. Þar er veitt þjónusta í anda Ljóssins þar sem einstaklingar með heilabilun og aðstandendur þeirra sækja sér þjónustu fagaðila og nota virkni við hæfi. Mikil þörf hefur verið fyrir þessa starfsemi.

Sem styrktaraðili gerir þú okkur kleift að reka miðstöðina af myndarskap og  bæta hag þeirra sem greinast með heilabilun

Alzheimersamtökin veita skjólstæðingum sínum fræðslu, ráðgjöf og stuðning auk þess að veita starfsfólki í á heilbrigðisstofnunum fræðslu.

Kæri vinur! Við þurfum sárlega á þér að halda til að geta veitt þjónustu þeim sem á þurfa að halda

Hægt er að styrkja Heilavini hér!
Side Image

Hvað er Heilavinur?

Allir geta orðið Heilavinir.
Það eina sem þarf er að gefa til kynna að maður vilji auka þekkingu sína um heilabilun og vera tilbúinn til að sýna samhug og vinsemd. Því fleiri sem gerast Heilavinir þeim mun meiri líkur eru á að einstaklingur með heilabilunarsjúkdóm upplifi sig velkominn í sínu samfélagi og finni fyrir öryggi.

Verkefnið snýst um að koma auga á einstaklinginn á bak við sjúkdóminn.

Heilavinur tekur eftir og bregst við aðstæðum sem kunna að koma upp þar sem einstaklingur er til dæmis í vanda og virðist ekki ráða við aðstæður. Heilavinur ber lítið hjarta í barminum sem tákn um að hann sé tilbúinn að leggja sitt að mörkum í átt að styðjandi samfélagi.

Heilavinur tekur eftir og bregst við aðstæðum sem kunna að koma upp þar sem einstaklingur er í vanda og virðist ekki ráða við. Heilavinur ber lítið hjarta í barminum sem tákn um að hann sé tilbúinn að leggja sitt að mörkum í átt að styðjandi samfélagi.
Heilavinur getur sýnt samhug og vinsemd á margan hátt:
  • Sýnt þolinmæði og komið einstaklingi til hjálpar sem lendir í erfiðleikum t.d. í verslun við að finna vörur, í biðröð á kassa og þegar greiða á fyrir vörurnar.
  • Ef einstaklingur hefur villst af leið og ratar ekki heim, að koma þá viðkomandi til hjálpar.
  • Ef einstaklingur er í búningsklefa og finnur ekki salernið og margt fleira.
  • Hugsa má það að vera heilavinur á svipaðan hátt og skyndihjálparnámskeið, maður kemur fólki í neyð til aðstoðar.


 
Side Image

Markmiðið er - Vinur fyrir hvern einstakling með heilabilun

Söfnum 5.000 Heilavinum

Með ykkar hjálp tekst okkur að finna Heilavini víðs vegar um landið og vinna markvisst að því að mæta þörfum fólks með heilabilun og aðstandendum þeirra.

Samkvæmt Alþjóða heilbrigðisstofnuninni eru nú þegar 48 milljónir manna í heiminum með heilabilunarsjúkdóma. Á Íslandi er gert ráð fyrir verulegri fjölgun í elstu aldurshópunum og með hækkandi aldri  aukast líkurnar á að þróa með sér heilabilunarsjúkdóma, þó svo að heilabilun sé ekki eðlilegur fylgifiskur öldrunar. Það má áætla að á Íslandi séu um 5.000 manns með heilabilunarsjúkdóma og af þeim fjölda séu um 250 manns undir 65 ára aldri.
 
Side Image

Heilavinasaga

21.september 2020 er Alþjóðlegi Alzheimerdagurinn en nú eru komin rúmlega 3 ár síðan pabbi greindist með Alzheimer. Síðasta ár er búið að vera ótrúlega dýrmætt en þar sem ég er búin að vera í fæðingarorlofi hef ég getað eytt miklum tíma með pabba. Þegar Finnur fór að vinna kom pabbi til mín á hverjum einasta morgni til að hjálpa mér og veita okkur félagsskap. Þó pabbi sé aldrei einn með afastrákunum sínum þá getur hann samt alltaf hjálpað til og leikið við þá þegar við erum til staðar. Pabbi elskar að vera afi en eins og flestir vita fékk hann tvo nafna, þá Daníel Stefán og Stefán Hauk. Í dag á hann enn þá erfitt með að muna nöfnin þeirra en kallar þá yfirleitt Daníel og Hauk. Einhverja hluta vegna nær hann ekki Stefáns nafninu sama hve mikið við höfum reynt að hjálpa honum að muna það.
Pabbi byrjaði í Hlíðabæ sem er dagþjálfun fyrir heilabilaða fyrir 9 mánuðum síðan. Það var stórt skref fyrir okkur öll en á sama tíma ótrúlega góð ákvörðun og í dag mætir pabbi alla virka daga og er mjög ánægður.
Pabbi finnur fyrir afturför eins og við öll. Það sem hefur hamlað honum mest er málstolið. Að finna ekki orðin sem hann vill segja er erfitt. Fyrir okkur sem þekkjum hann vel er auðvelt að fylla í eyðurnar en fyrir aðra er oft erfitt að vita hvað hann vill segja. Það er erfitt að horfa uppá pabba missa færni en hluti af sjúkdómnum er verkstol. Pabbi er hættur að keyra, hættur að elda, hættur að komast einn í ræktina og á orðið erfitt með einfalda hluta eins og að hringja símtal. En það er margt sem hann getur enn gert. Hann hleypur, spilar golf, púslar, gengur frá þvotti og svo nýtur þess að eyða tíma með fjölskyldu og vinum. Hann er alltaf til í að hjálpa og þegar við fjölskyldan vorum að flytja í sumar var hann mættur á hverjum degi til að hjálpa og óumbeðinn var hann búinn að slá garðinn og snyrta runnana. Svo sér hann enn þá alltaf á mér hvenær ég er þreytt og minnir mig á að slaka á sem ég er víst ekki nógu góð í.
Í ágúst leið yfir pabba í tvígang og reyndist hann vera með gáttatif og þurfti að leggjast inn á hjartadeildina í kjölfarið. Hann fór í rafvendingu og þurfti síðan gangráð þar sem púlsinn var mjög hægur. Pabbi lá inni í viku og ótrúlegt hvað hann var jákvæður og allt gekk vel. Pabbi mátti ekkert hreyfa sig í 4 vikur eftir þetta en eins og flestir vita hefur hreyfing alltaf verið mikilvæg fyrir pabba. Hann hefur tekið þessu ótrúlega vel og er loksins að byrja hreyfa sig aftur. Síðustu mánuði hefur þrekið minnkað, pabbi er oft þreyttur og þarf því oft að leggja sig á daginn. Hann finnur það sjálfur að hann getur ekki hlaupið hálft maraþon eins og hann gerði fyrir ári síðan en stefnir á að geta hlaupið aftur 10km.
Við fjölskyldan höfum fengið mikinn stuðning frá Alzheimersamtökunum og fólki í sömu sporum. Frumkvöðlahópurinn var stofnaður fyrir sirka tveimur árum síðan sem samanstendur af ungum einstaklingum sem hafa greinst með alzheimer og mökum þeirra. Þessi hópur hittist reglulega og hefur hjálpað bæði mömmu og pabba en það hefur reynst þeim mikilvægt að eiga samskipti við fólk sem er í sömu sporum. Við afkomendur ungra einstaklinga með Alzheimer höfum líka stofnað hóp og hist reglulega sem hefur verið mjög gott. Nýjasta verkefnið hjá Alzheimersamtökunum er heilavinur og snýst það um að koma auga á einstaklinginn bak við sjúkdóminn en ég hvet alla til að gerast heilavinir. Það er mikilvægt að auka umræðuna um heilabilun og mér finnst pabbi vera fyrirmynd fyrir aðra unga einstaklinga með Alzheimer og hvernig hann hefur tekist á við þetta erfiða verkefni.
Pabbi er líka mín fyrirmynd og besti pabbi og afi í heimi.
#heilavinasaga
#heilavinurafölluhjarta

Top Image

Hvað veistu um heilabilun?

1790
einstaklingar hafa samþykkt að fræðast nánar um heilabilun.
Skráðu þig og fáðu upplýsingar og fróðleik um heilabilun
Fáðu Heilavina næluna á skrifstofu Alzheimersamtakanna.
Taktu þátt og vertu Heilavinur!
Vertu heilavinur